Ræðumennska!

26. nóvember 2009

public%20speaking1Slakaðu á!

Við erum venjulega okkar eigin verstu gagnrýnendur. Ef þú gleymdir einni setningu úr glósunum þínum, hafðu ekki áhyggjur, það tók enginn eftir því. Ef þú gleymdir að fjalla um eina glæruna, ekki hafa áhyggjur, það er enginn að fara að bannfæra þig úr vinnunni. Aðal atriðið! ENGAR ÁHYGGJUR, slökum á. Þetta er ekki upp á líf og dauða. Þetta er nú bara lítil ræða 😉

Ekki viðurkenna stressið!

Ef þér mun virkilega líða mun betur, skaltu segja við allan salinn að þú sért stressuð/aður áður en þú byrjar. EN ræðan þín mun hafa mun meira vægi og verður sterkari ef þú sleppir því. Það eru miklar líkur á að þú sért eina manneskjan sem veist að þú sért stressuð, þannig að hversvegna ættirðu að sína veikleikana þína sem annars sjást ekki? Láttu þau halda að þú sért með fullkomna stjórn, jafnvel þó þér finnist þú ekki hafa það.

Hægðu á þér

Eitt af því sem er hvað mest áberandi hjá stressuðum ræðumönnum er hvað þeir tala hratt. Þú kannt að vera með flottustu ræðu í heimi, en ef enginn skilur hvað þú ert að segja, skiptir það engu. Hægðu á þér og mundu að tala í eðlilegum hraða, jafnvel hægar þegar þú talar opinberlega!

Augun

Fólk treystir þeim sem horfa í augun á sér, þannig að horfðu á áhorfendurnar og náðu augnsambandi þegar þú talar við þá. Ekki líta niður á gólfið – það er enginn þar. Og ekki horfa eingöngu á blöðin þín, því þá munu áheyrendurnir halda að þú sért illa undirbúin. Þú lítur út fyrir að vera mun sjálfsöruggari þegar höfuðið er reist upp sem líka gefur áhorfendunum tækifæri til að slaka eilítið meira á.


Að halda ræðu 2

29. október 2009

PublicSpeakingAð halda ræðu getur verið taugastrekkjandi, en hér eru nokkur ráð sem hjálpa þér að verða ræðusnillingur!

1. Þekktu umfjöllunarefnið!

Kynntu þér það sem þú ert að fjalla um og vertu viss um þær staðreyndir sem þú teflir fram. ef þú veist hvað þú ætlar að segja og veist að staðreyndirnar eru réttar, verðurðu mun öruggari og getur svarað spurningum ef að þær koma!

2. Æfðu þig, æfðu þig meira og æfðu þig síðan örlítið meira.

Þegar þú ert búinn að undirbúa þig, haltu þá einskonar æfingaræðu, og síðan aftur og síðan einu sinni í viðbót. Talaðu við hundinn þinn, fyrirframan spegilinn eða fjölskyldumeðlimina. Í hvert skipti sem þú heldur æfingaræðuna, þá muntu læra efni hennar betur, eykur sjálfsöryggið þitt og verður flottari ræðumaður!

3. Ímyndaðu þér að þú sér frábær!

Neikvæð hugsun kemur þér hvergi. Ef þú hefur trú á því að þú munir standa þig vel, þá muntu gera það. Ef þú heldur að þú munir klikka, veistu…þá muntu líklega klikka! Eins einfalt og það nú er!

4. Þekktu áheyrendur þína

Eins einfalt og þetta hljómar kannski, er þetta ofsalega mikilvægt. Við hvern ertu að tala? Fjölskylduna, vinnufélagana, vinina? Ef þú ert að tala við vini þína, þá vilja þeir kannski fá smá skemmtun í leiðinni, en ef þú t.a.m. ert lögmaður að tala við dómara, þá er betra að skilja húmorinn eftir úti. Hugsaðu líka um hvort að aldurshópurinn sé breiður eða á hvaða bili hann er. Sumir brandarar og sum dæmi eiga kannski betur við Iphone kynslóðina heldur en aðra hópa.


Að halda ræðu!

1. október 2009

Public%20SpeakingAð halda ræðu eða tala fyrir framan fólki er ábyggilega eitt af því sem við mannfólkið eigum hvað erfiðast með, en á sama tíma erum við oft afar gagnrýnin á þá sem við hlustum á, kannski er það nú þessvegna sem við verðum svo stressuð þegar við eigum sjálf að standa fyrir framan hóp af fólki og segja nokkur orð! En hafðu ekki áhyggjur, hérna eru nokkur ráð sem hjálpa þér að undirbúa næstu tölu.

1. Lærðu af meisturunum.

Ef þú veist að þú átt að halda ræðu t.a.m. í brúðkaupi innan fjölskyldunnar eða átt bara að halda fyrirlestur í skólanum eða vinnunni, fylgstu þá sérstaklega vel með þeim sem eru að halda svipaða fyrirlestra eða ræður í kringum þig. Og kíktu jafnvel á youtube og skoðaðu myndbönd af fólki sem má kalla „meistara“ í ræðumennsku s.s. Winston Churchill nú eða líttu nær okkar tíma og skoðaðu framá menn í samfélaginu okkar, og jafnvel framámenn annarsstaðar s.s. forseta Bandaríkjanna eða fyrrum forseta þar á bæ. Þú getur jafnvel kíkt á framámenn úr löndum sem þú kannt ekki tungumálið í, því að þú ert ekki bara að hlusta á efnið, heldur líka almennt yfirbragðið. Prufaðu síðan að „herma“ eftir stílbrögðum meistaranna!

2. Veldu rétt föt!

Hvað eru rétt föt? Það er góð spurning, það fer allt eftir því við hvaða aðstæður þú ert að stíga fram og opna munninn. En aðalatriðið er að þú sért sátt(ur) við þann fatnað og almennt um útlit þitt þegar þú stendur upp. Öll höfum við áhyggjur af því að fólkið í kring sé að dæma okkur og ef þú getur valið fatnað og hárgreiðslu sem þú ert sátt(ur) við, þá þarftu ekki að hafa áhyggjur af þessum hlutum þegar þú hefur mál þitt!

3. Kynntu þér herbergið eða salinn.

Ef að það er möguleiki fyrir þig, reyndu þá að kíkja á staðinn þar sem að þú ert að fara að halda fyrirlesturinn eða ræðuna. Kíktu í fundarherbergið, kennslustofuna eða veislusalinn og skoðaðu aðstæður. Okkur líður nefnilega mun betur í aðstæðum sem við þekkjum, heldur en aðstæðum sem við vitum ekkert um. Þannig að því betur sem þú þekkir staðinn, því auðveldara verður að flytja mál þitt! Þetta á líka við um hlutina sem þú ert að fara að nota, t.d. ef þú ert með PowerPoint skjöl eða munt nota hljóðnema, prufaðu þessi tæki áður en ræðan byrjar og hlutirnir munu án efa ganga örlítið betur.

4. Vertu edrú þegar þú talar!

Þetta á kannski helst við um ræður sem haldnar eru við hátíðleg tilefni. Margir eiga það til að skvetta smá áfengi upp í sig, kjarksins vegna, en staðreyndin er sú að okkur finnst við mikilvæg tilefni mun skemmtilegra og innilegra að heyra pínulítið stressaða manneskju flytja falleg orð um vin eða vinkonu heldur en „léttfullan“ vin segja óskiljanlegar setningar og reyna að vera hallærislega fyndinn. Stundum er bara betra að sleppa víninu.